Heilsufar og sjúkdómar hænsnfugla!

 

Sjúkdómar eru til og geta herjað á hænsnfugla eins og aðrar lifandi verur.Munið að það er gott að venja sig á að nota ALLTAF einnota hanska þegar verið er að eiga við og eða handfjatla fuglana.Góðir hanskar fást t.d. í Rekstrarvörum og eru 100 stk.í pakkanum.Það er nauðsynlegt fyrir fugla eigendur að eiga slíka hanska.Og þeir kosta ekki mikið.Allir eða flestir kannast við camfilobackter og salmonellu en þeir sjúkdómar eru í eða koma oftast nær upp í stóru verksmiðjubúunum. Ég hef ekki heyrt um þá hjá þeim sem eru með fáar hænur til heimilisins eða sér til gamans. En allir fuglar geta jú fengið þessa sjúkdóma. Verður þó ekki fjallað um þá sjúkdóma hér en fólk getur, ef það vill, kynnt sér þá á heimasíðu Yfirdýralæknis og hjá Landlæknisembættinu.

Þó nokkuð hefur verið haft samband við mig vegna veikra fugla og hef ég reynt að hjálpa til eins og ég get. Ætla ég að fjalla um veikindi í hænum sem virðast oftast koma upp.

 

Vítamínskortur:

 

B-Vítamín.

 

Hænsnfuglar þurfa vítamín eins og allar aðrar lifandi verur.Ef fuglarnir fá þetta ékki með fóðrinu hvort sem þeir eru úti eða inn þá fer að bera á skorti og þarf að bæta þeim það upp.SKortur á vítamínum og steinefnum kemur helst fram að vetri til og frekar þegar fer að líða fram veturinn. Slappleiki getur komið í fuglana og þeir virst dofnir,fara rólega um og hafa hægt um sig og éta lítið eða ekkert .

 

Þetta getur verið B-vítamínsskortur. Leysið upp svona 5 töflur af sterkum B-Kombín (fást í öllum verslunum og lyfjabúðum) í einum lítra af vatni.Látið þetta standa yfir nótt og hristið vel saman þar til vatnið er orðið fallega gult og töflurnar alveg uppleystar.Hellið svo einu desilítra af þessu saman við hverja 5 lítra af vatni og hafið hjá fuglunum ( minnkið magnið ef ílátið sem þið notið er minna) .

 

Sjálfum finnst mér gott að gera þetta allan veturinn til vonar og vara og byrja á að gefa þessa blöndu saman við vatnið í október á hverju ári og fram í maí lok eða þegar fuglarnir eru farnir að vera úti allan daginn og farnir á ná sér í grænan gróður og skordýr sem oftast eru vöknuð og kominn fram á þeim tíma. Það er engin hætta á að B vítamín safnist upp í líkamanum því það sem líkaminn nýtir ekki fer úr honum með þvagi og saur.

 

E vítamín.

 

E vítamín skortur ( selen skortur) lýsir sér í því að fuglinn hálf lamast að hluta í fótum og má sjá þetta vel á hegðun fuglanna.Oftast er það annar fóturinn sem liggur aftur eða fram með fuglinum og svo virðist sem hann geti ekki beitt honum rétt eða stigið í hann.

 

Fóturinn virðist vera stjórnlaus,alveg stífur og liggur ýmist beinn aftur eða fram á við eða út til hliðar og fuglinn hoppar um eða hreifir sig þannig og getur ekki notað fótinn.Að öðru leiti er fuglinn hress,vel vakandi,augun opin,drekkur og étur eðlilega og er ekkert slappur. Sama ráð og við B vítamín skorti hefur gefist vel.

 

Takið 5 E vítamín töflur og leysið upp í einum lítra af vatni og hristið vel saman.Setjið svo um 1 desilítra af þessu saman við vatnið hjá fuglunum.Það er besta aðferðin að setja þetta saman við vatnið og láta fuglana taka þetta sjálfa inn heldur en að vera að reyna að sprauta uppí einn og einn veikan fugl.Þetta er minni vinna og allir fuglarnir fá þá vítamín sem kemur þá í veg fyrir að þá skorti það. Veiki fuglinn ætti svo að rétta af á nokkrum dögum.

 

Sjúkdómar og fl.

 

Hnýslasóttin:

 

Hnýslasótt er algeng í fuglum sem og öðrum dýrum og þess vegna eru hnýslasóttar lyf í byrjunarfóðrinu Unga I. Þetta er gert til að drepa niður hnýsilinn sem og fuglinn á að mynda mótefni gegn þessu fyrir lífstíð.

 

Þó getur það komið fyrir af einhverju ástæðum að svo er ekki og getur fuglinn þá veikst af Hnýslasótt þegar hann er orðinn nokkurra vikna gamall og jafnvel fullorðinn (árs gamall) eða eldri. Sóttin lýsir sér þannig að fuglinn er valtur,daufur,étur ekki eða drekkur og það er ljós gul eða gráleit útferð aftan úr honum sem og hann er rennandi blautur að aftan og vængirnir lafa niður með báðum hliðum.

 

Besta ráðið sem ég hef notað vegna þessa er að eiga til lambasúlfa(súlfatöflur) en þær er hægt að fá hjá flestum eða öllum dýralæknum nú eða næsta fjárbónda.Þetta lyf er gefið nýfæddum lömbum á vorin gegn skitu og eiga allir fjárbændur þetta til. Í hvern 1 og 1/2 lítra af vatni hef ég leyst upp eina súlfatöfu og látið fuglinn taka þetta þannig inn enda besta aðferðin eins og með vítamínið.

 

Takið fuglinn strax frá hópnum enda er Hnýslasóttin mjög smitandi og berst fljótlega í aðra fugla ef hún að annað borð byrjar og hafið hann sér í nokkra daga,gefið honum þetta lyf saman við vatnið í vikutíma eða svo. Látið hann vera sér í nokkra daga eftir meðferðina og setjið hann svo aftur saman við hópinn.

 

Hnýslasóttin drepur fuglinn á nokkrum dögum sé ekkert að gert og best er að byrja meðferð strax eða sem fyrst og hún uppgötvast. Hreinlæti skiptir alltaf miklu máli og handleikið aldrei veikan fugl án varna.

Notið alltaf einnota hanska þegar þið meðhöndlið veikan fugl og sérstaklega ef um Hnýslasótt er að ræða. Skiptið um hanska við hvern fugl en takið ekki upp annan fugl með sömu hönskum og þið voruð með að meðhöndla fyrri fuglinn.Komi upp Hnýslasótt er MJÖG áríðandi að sótthreinsa svæðið vel þar sem fuglinn var svo ekki berist smit í aðra fugla í hópnum.

 

Munið að taka alltaf veikan fugl sér og hafa hann sér þar til hann er orðinn vel hress áður en hann er settur saman við hópinn á nýjan leik.Fylgist svo vel með honum næstu daga á eftir þar sem hann er nú orðinn utanað komandi og getur orðið fyrir áreiti innan hópsins.

 

Lömun:

 

Borið hefur á því að fólk hafi fundið eina og eina hænu sem virðist vera lömuð. Þetta lýsir sér með því að ekkert virðist bera á neinu er komið er í kofann en daginn eftir er kannski ein hæna sem liggur. Hún virðist þó vera hress, lyftir höfði, blakar vængjum en fæturnir liggja út frá henni til annarrar hliðar og virðast vera stífir.

 

Hænan getur ekki borið þá fyrir sig og liggur. Oftast er um unga fugla að ræða, unghænur sem eru nýbyrjaðar í varpi og stafar þetta oftast nær af eggjastíflu, en ég kalla það svo (veit ekki um neitt sérstakt heiti á þessu). Fuglinn kemur sem sagt ekki frá sér egginu, það virðist vera of stórt og stendur fast í mjaðmagrindinni.Mér hefur reynst best að taka fuglinn undir aðra hendina, láta hausinn snúa aftur,og setja tvo fingur milli fótanna á hænunni og strjúka þéttingsfast eftir kviðnum og ná þannig egginu út, en fyrir alla muni gerið þetta varlega svo þið skaðið ekki fuglinn.

 

Sum egg er mjög föst í fuglinum, virðast standa pikkföst í mjaðmagrindinni og nást ekki út með því að strjúka fuglinn. Hef ég þá brugðið á það ráð að setja á mig einnota hanska, setja fingur inní fuglinn,finna fyrir egginu og reka í það pinna og brjóta það þannig, hallið svo fuglinum niður og ætti eggið þá að renna út úr fuglinum. Farið bara mjög varlega og passið að skaða ekki fuglinn. Gott er að nota áhald sem er eins og blýantur að sverleika en passið að þa ðsé ekki oddhvasst svo það skaði ekki fuglinn innvortis.

 

Fuglinn er stirður og valtur fyrst á eftir, það tekur hann um 3-5 daga að rísa á fætur aftur, hafið hann sér í nokkra daga og hleypið honum síðan saman við hópinn, fylgist bara vel með honum í nokkra daga.

Önnur lýsing á lömun sem borið hefur á er sú að fuglinn getur ekki staðið í fæturna, hann liggur með fætur undir sér en er hress að öðru leyti, tekur vatn og fóður en rís ekki upp. Af minni reynslu getur þetta verið þrennt.

 

Í fyrsta lagi B-vítamínskortur og hef ég mulið eina sterka B-combín töflu út í vatnið hjá fuglunum og hafa fuglar rétt við af þessu. Töflurnar fást í lyfjabúðum og öðrum verslunum og er ein tafla sett í hvern lítra af vatni. Í öðru lagi er ef til vill eitthvað að eða klikkar í höfðinu á fuglunum, sem ég hef heyrt um að komi fyrir, en þá er ekkert hægt að gera og fuglinn fjarar út á stuttum tíma.

 

Loks getur þetta verið ígerð, sem er algeng hjá varphænum og vel þekkt. Ígerðin er þá í þörmunum og eggjaleiðurum og ef hún er mikil getur hún orsakað lömun.Auðvelt er að sjá hvort um ígerð er að ræða þar sem fuglinn er blautur við eggjaopið(endaþarminn) og er guleitt klístur á honum og í kringum eggjaopið.

Notið einnota hanska og þvoið ykkur vel á eftir og passið að fara ekki á milli fugla eftir að vera búin að hjálpa veikum fugli með igerð nema vera hrein,þetta getur verið smitandi á milli fugla.

Ef fuglinn sýnist slappur eða er að lamast má reyna að nota penecillin, notið litla sprautu, mjög granna nál og sprautið ca 2 ml í fuglinn í 4 daga.

 

Best er að sprauta í lærið. Ath. efnið er langvirkandi og ekki má nota afurðir, hvorki egg né kjöt af fuglinum í 3 vikur á eftir. Ef eitthvað ber á þessu hjá ykkur og fuglinn drepst þá finnst mér sjálfsagt að senda fuglinn, eða fuglana, að Keldum til rannsóknar og fá úr því skorið hvað var að. Þannig komumst við að því hvað þetta er og hvað er hægt að gera til lækningar ef hægt er að lækna þetta á annað borð. Dýralæknir í alifuglasjúkdómum kryfur þá fuglinn og sjúkdómsgreinir hann. Þó er það oftast svo að ef fuglar veikjast þá virðist vera erfitt að fá þá til að rétta við aftur og þeir drepast. Það má þó alltaf reyna og gera það sem hægt er. Oft tekst manni líka að bjarga þeim og þá er sigur unninn. Betra að reyna en að gefast upp strax..

 

Einnig er hægt að setja nokkra dropa í vatnið af penecillini en farið varlega í það og passið að setja ekki of mikið.T.d. 1 dropa í hvern líter af vatni,það ætti að duga. Ekki hirða eða nota afurðir í 3 vikur frá eða úr fugli sem hefur verið á penscillini .

Svo er það þekkt hjá hænum eins og öðrum lifandi verum en það að fugl liggur dauður einn morgunin þegar komið er í húsið til þeirra,það sést ekkert á fuglinum,hann liggur eins og hann sé sofandi og jafnvel með hausinn undir væng.......þetta kemur helst fyrir hjá eldri fuglum sem orðnir eru þriggja ára eða eldri en getur jú gerst hjá yngri fuglum líka. ....... Fuglinn hefur einfaldlega orðið bráðkvaddur.

 

Riða eða jafnvægistruflun:

 

Stundum ber á nokkurs konar ríðu í fuglum eða jafnvægistruflun og á þetta oftast við um unga fugla, frá nokkurra daga gömlum og uppí að vera um 20 vikna. Oftast kemur þetta þó þegar ungarnir eru um 8-12 vikna gamlir. Þetta kallast Hnýslasótt og verkar á jafnvægisskynið hjá fuglunum. Gott ráð við þessu er að setja "súlfa" í vatnið hjá þeim. Þetta lyf fæst hjá dýralæknum í töfluformi,setjið 2-3 töflur í 1 líter af vatni og leysið þær upp.

 

Setjið svo ca.1/2 dl.í vatnið hjá fuglunum. Passið að taka veika fuglinn/fuglana sér en látið hina ekki komast í vatnið nema þetta sé í mörgum fuglum í sömu hjörð. Ef ílátið er minna en 5 lítrar þá minnkið skammtinn um helmig og geymið afganginn til næstu daga. Gefið þetta lyf í allt að 7 daga í vatnið hjá fuglunum. Fuglinn/fuglarnir ættu að rétta af á fimm til sjö dögum. Misjafnt þó eftir einstaklingum en oftast á þessum tíma.

 

Flær og lýs:

 

Allar lifandi verur geta fengið flær og lýs á sig,hænsni er þar engin undantekning. Ef tekið er eftir að fuglinn er órólegur,alltaf að plokka sig og snyrta þá takið hann upp og skoðið vel. Það sést vel á fuglinum ef hann er með fló því þetta eru litlar pöddur sem skríða um allt á honum. Stundum er lítið af þessu en oft er fuglinn morandi í þessu. Helst fá fuglarnir fló ef þeir eru mikið lokaðir inni og geta ekki baðað sig vel.

 

Og miklir möguleikar eru á að það sé fló á hænum ef menn eru með dúfur og eða það er mikið af Starra á svæðinu.Starinn er orðlagður fyrir að vera með fló. Best er að leyfa hænunum að vera úti við,eins mikið og hægt er og sjá til þess að þær komist á blöndu af mold og sandi,þá baða þær sig í því og hreinsa húðina. Þegar fólk sér fuglinn liggja á hliðinni eða á bringunni og ausa yfir sig mold og sandi er hann að þrífa sig. Athugið að fuglinn er 39 gráðu heitur en maðurinn er 37-37,5 stiga heitur og fuglafló lifir ekki á okkur. Hún getur farið á okkur og bitið og koma þá litlar rauðar bólur sem klæjar í en flóin lifir ekki nema í 1-2 tíma á okkur og fjölgar sér ekki á mannshúð.

 

Svo verið óhrædd við þetta. Fætur fugla eru þaktir hornflögum og mismunandi að lit og áferð og fer það eftir aldri á fuglinum. Ungir fuglar eru með sléttar hornflögur og litur á fótunum er gulur,ljós,bleikur eða dökkur en flögurnar liggja þétt saman og eru glansandi á fótum ungra fugla. Fló getur líka farið á fætur fugla en aðallega á eldri fuglana. Þegar hænan eldist verður liturinn á hornflögunm grá hvítur og þær verða grófari á að líta. Fló getur skriðið undir hornflöguna og búið um sig þar. Þetta sést vel ef flögurnar fara að standa út í loftið og virka grófar og gysnar. Þetta getur orðið til þess að fuglinn heltist,líður illa og þrífst illa. Besta ráðið við þessu er að strjúka með tusku eða pensli, matarolíu á fætur fuglanna og er nóg að gera þetta einu sinni í mánuði. Flóin þolir ekki olíuna og drepst strax.

 

Eins drepur olían nit flónna þar sem hún hefur verp henni undir hornflögurnar. Fuglinn sjálfan er svo hægt að baða uppúr volgu vatni með örlitið af grænsápu í ef mikið ber á þessu. En athugið að hafa sápuvatnið mjög milt og látið fuglin þorna vel. Sápan skemmir náttúrulegu fituna í fiðrinu og þarf því að vera hlýtt hjá fuglinum á meðan hann jafnar sig eftir baðið og þorna .

 

En flóin drepst strax við þetta vegn sápunnar. Hreinsið svo út hjá fuglinum,loftið vel út og berið nýtt lag af spónum eða hálmi undir þá. Þá ætti flóin að hverfa úr húsinu og af fuglinum. Eins er hægt að fá flóarlyf hjá dýralæknum og í gæludýrabúðum ef fólk vill athuga það. Fuglafló er ekkert öðruvísi en mannafló eða fló á köttum eða hundum. Það þarf bara að meðhöndla hana eins og annað ef hún kemur upp á stofninum hjá manni,fló er til á öllu sem lifir,hænur sleppa ekkert frekar við hana en flest allt annað. Gangi ykkur vel í báráttunni við flónna ef hún kemur upp hjá ykkur.

 

Köfnun:

 

Ef komið er að fugli sem liggur á hliðinni eða bakinu og hann sparkar mikið,hreifist hratt í hringi og veltist um þá er sennilegasta skýringin að það standi eitthvað í fuglinum. Þetta getur komið ef fólk er að gefa fuglunum brauð og molarnir eru of stórir.

 

Fuglarnir eru gráðugir í brauðið og taka eins mikið til sín á sem stystum tíma því jú alltaf er þetta baráttan um brauðið. Þá er hættan á því að þeir gleypi bæði of marga og stóra mola í sig á of stuttum tíma. Brauðið er þurrt og raðar sér því niður eftir vélindanu og endar svo á að fylla vélindað uppi kok og stoppar þar með alla öndun. Fuglinn kafnar þá ef ekkert er að gert. Best er að taka fuglinn upp,halda undir magann á honum(bringuna),láta stélið snúa upp og hausinn niður (hvolfa fuglinum) og berja þéttings fast á bakið,byrja efst og fær sig niður að stélinu og gera þetta nokkrum sinnum þar til um losnar.

 

En farið varlega og berjið ekki mjög fast eða harkalega í fuglinn. Þið finnið strax þegar þetta losnar og öndunin breytist strax. Látið fuglinn drekka vatn strax á eftir og setjið hann sér um stund á meðan hann jafnar sig. Þetta getur tekið nokkra tíma fyrir hann að rétta af. Hafið nóg af vatni hjá honum á meðan en alls ekkert fóður.Til að koma í veg fyrir svona þá er gott ráð að bleyta aðeins í brauðinu með vatni áður en það er gefið .Gott er t.d. að stinka vatni yfir brauðið daginn áður en það er gefið til fuglanna. Þá er það meyrt og rakt og minni hætta á uppákomu eins og að frama greinir. Gangi ykkur vel.

 

Glenntir fætur á nýklöktum ungum.

 

Það getur komið fyrir og kemur stundum fyrir að ungar nái ekki að rétta úr fótunum þegar þeir eru nýskriðnir úr egginu og eru þá eins og í splitt... það er fæturnir liggja út frá þeim til beggja hliða eða annar fóturinn vísar fram og hinn aftur og geta þeir því ekki staðið upp.Þetta gerist í útungunarvélunum þegar ungarnir koma úr egginu og ná ekki fótfestu strax og þeir eru orðnir þurrir af einhverjum ástæðum.

 

Það getur verið vegna þess að botninn sé sleypur,blautur eða eitthvað annað sem kemur í veg fyrir að þeir standa rétt upp. Oft er ástæðan sú að ungarnir hoppa úr grindunum í vélunum og komast á botninn á þeim en botninn er yfirleitt slétt plast eða málmur og veitir enga spyrnu,sérstaklega ef hann er rakur og eða blautur.Ungarnir gefast upp eftir nokkrar tilraunir og festast í þessari stellingu enda eru þeir að rétta úr sér eftir að vera hnipraðir saman í kúlu innan í egginu og eru því mjög mjúkir og meðfærilegir.Þessir ungar veslast upp og deyja sé ekki gert neitt til að laga þetta en það er í mörgum tilfellum hægt.

 

Stundum hefur reynst vel að nudda fæturnar daglega í nokkurn tíma en það er bæði tímafrekt og hefur ekki skilað eins góðum árangri og að "tape" ..."líma" þá upp. Best er að nota venjulegan plástur við þetta og hafa plásturinn á í nokkrar daga(mér hefur gefist best að hafa þá svona uppbundna ekki skemur en í 5 daga. Best er að tveir séu við þetta ef hægt er að koma því við því þetta er vandasamt og erfitt fyrir einn að gera.

 

Annar heldur á unganum og lætur hann liggja á bakinu í lófanum með fæturnar upp og útfyrir lófann. Hinn aðilinn tekur plástur og setur hann utan um annan legginn,þann hluta plástursins sem límið er á og hefur þykkildið (sárapúðann)á plástrinum í miðjunni(milli fótanna)enda er lengdin á sárapúðanum gott bil á milli fótanna og setur svo hinn enda plástursins utan um hinn fótinn á móti. Hafið svo ungan eða ungana sér í nokkrar daga og hann/þeir munu styrkjast og fara að standa eðlilega í fæturnar eftir 1-2 daga ef vel tekst til.Þó unginn eða ungarnir séu staðnir upp eftir 2 daga eða svo,ekki fjarlægja plásturinn fyrr en eftir ca.5 daga á meðan unginn/ungarnir styrkjast og venjast því að standa uppréttir.

 

Ormar.

 

Allir geta fengið orma í sig,bæði fuglar,menn og dýr. Ormar hafa slæm áhrif á þann sem er með þá og geta komið í veg fyrir að viðkomandi þrífist rétt og vel og það þarf að losna við þá. Fyrir utan hvað þa ðer óþægilegt að vera með orma sem og hversu ógeðslegt það er og smitandi.Vitað er um tvenns konar orma sem geta komið í hænurnar hér á landi. Þetta er sem betur fer sjaldgæft en hefur þó komið fyrir og getur komið uppá.

 

innvortis ormar.

 

Ef fuglinn er daufur,hangir mikið,hreifir sig einkennilega og gapir ásamt því að vond lykt og jafnvel glær vökvi getur komið útúr honum þá er hann sennilega með orma í meltingafærum(fóarni eða maga) eða í öndunarfærum(lungum) Til er lyf sem heitir Flubenvet og sérstaklega ætlað fuglum sem hýsa orma.Mér er ekki kunnugt um hvort þetta fæst hér á landi hjá dýralæknum en það er í athugun að panta þetta inn.

 

Ég mun láta vita af því um leið og fréttir af því berast.Þó er hægt að bjarga sér með öðru á meðan og hefur virkað vel þó Flubenvet sé besti kosturinn enda er það sérstakt ormalyf sem ætlað er fuglum.Það sem hafa þarf við höndina er lítil sprauta(ekki með nál) og eplasider(svaladrykkur sem fæst í flestum búðum)Í sidernum er sýra sem drepur ormana en skaðar ekki fuglinn.Best er að tveir séu við þetta og að annar haldi á fuglinum og hinn opni gogginn á honum.Setjið um 4 ml.af sider í sprautuna og sprautið þessu varlega upp í fuglinn og passið að allt fari ofan í hann.

 

Þetta þarf að endurtaka á hverjum degi í svona 5-7 daga og ættu bæði ormar sem og egg þeirra að drepast af þessuTakið fuglinn sér,gefið honum nóg að drekka og gott er að setja örlítið af borðediki saman við vatnið hjá honum(munið a ðsýra n drepur ormana og eggin þeirra),Sama sýra er í sider og ediki.Þegar tíminn er liðinn ætti fuglinn að vera hreinn og laus við orma,orðinn hress og óhætt er að setja hann saman við hópinn á nýjan leik.

 

Útvortis ormar.

 

Ef fólk tekur eftir því að það er mikið af iðandi ormun við eggjaop(þarmaop,cloaca) á fugli hjá sér þá þarf að drepa þá sem og eggin þeirra.Þessir ormar eru mjög litlir,hvítir eða jafnvel rauðleytir og sýnast eins og iðandi kös aftan á fuglinum. Gott er að taka fuglinn og þvo hann vel og vandlega með mildu grænsápuvatni og stinka svo á hann edik blönduðu vatni úr t.d. sprey brúsa og gefa fuglinum inn um 4 ml.af vægu edikblönduðu vatni með sprautu.

 

Ediksýran drepur ormana og eggin þeirra en við inngjöfina eru ormar inní fuglinum drepnir líka.Athugið að það er ekki nóg að losna bara við ormana utan á fuglinum.Gott er að endurtaka þetta í svona 3-4 daga og ætti fuglinn að losna alveg við alla orma sem og eggin frá þeim.Þar sem edikið þurrkar húðina þá er gott á siðasta degið að pennsla,nudda eða spreyja matarolíu aftan á fuglinn og vel í kringum eggjaopið á honum.Olían heldur raka í húðinni sem og flest snýkjudýr þola ekki feitina í olíunni.

 

Flensan:

 

Allir eða flestir hafa heyrt fjallað um fuglaflensuna sem hefur komið upp í fuglum víða undanfarin misseri. Fuglaflensa hefur verið til í nokkuð mörg ár og eru til margar tegundir og afbrigði af henni. Það afbrigði sem mest hefur verið fjallað um er stofn H5H1 svokallaður og er vitað til þess að hann hafi farið í menn. Veiran fer ekki í menn nema stökkbreytast og þarf hún að hýsast í öðru dýri, t.d. svínum til þess að geta breytt sér og farið í menn.

 

Að vísu hefur verið mikið um "andlega" fuglaflensu hér á landi síðan í haust (2005) og hefur hún lagst þungt á marga en sjálf flensan eða veiran hefur ekki enn greinst hér á landi og gerir vonandi ekki. Að sjálfsögðu þarf að fara að öllu með gát og taka slíkt alvarlega eins og flensan er og fara eftir reglugerðum og leiðbeiningum sem um þetta gilda. Það er líka alveg óþarfi að upplifa hana fyrirfram eins og svo margir hafa gert. Fuglaflensan hefur farið í menn í Asíu og þar er allt önnur aðstaða en hér er og allt annar aðbúnaður, reglugerðir og hreinlæti. Fuglar eru geymdir í opnum bambusbúrum úti á götu, margir saman eða í kofaskrifli sem varla tollir saman.

 

Greinlegt er á myndum að það er ekkert borið undir fuglana og allur aðbúnaður og hreinlæti í lamasessi. Allt vaðandi í driti og öðrum óhreinindum og börnin að leika sér í þessu og með hausa,lappir,vængi og fleira af dauðum fuglum. Hitinn í þessum löndum er líka um eða yfir 40° á celslius, svo að er ekki er hægt að bera þetta saman við hreinlæti, reglugerðir eða aðbúnað sem hér er í gildi , hér er líka svo miklu kaldara en þarna í Asíu en bakteríur og veirur lifa og fjölga sér betur í hita og raka en í röku og köldu lofti. Fuglar sem hingað koma þurfa að fara yfir stórt úthaf þar sem veður eru válind og ferðin tekur nokkra daga. Ég held að ekki sé mikil hætta á að sjúkur fugl hafi ferðalagið hingað af þar sem þessi veira legst á öndunafærin og fygla sem er veikur í öndunarfærum hefur ekki þrek til að fljúga nokkur þúsund kílómetra yfir opnu úthafi.. Við skulum þó vera á varðbergi samt sem áður og gæta fyllsta hreinlætis og fara eftir settum reglum.

Annars bendi ég á síðuna hjá Yfirdýralæknisembættinu. Þar er að finna umfjöllun og reglugerðir um varnir gegn fuglaflensunni.

Vonandi er að þið getið notfært ykkur þetta og að það komi að gagni.

 

Gott að eiga vegna sjúkdóma.

 

Nokkur atriði er gott að hafa í huga þegar fólk er með fugla og eins er gott að vera vel undirbúinn ef fugl veikist hjá manni. Því er nauðsynlegt að eiga smávegis af áhöldum og lyfjum ef því verður við komið en geymið það á afviknum og læstum stað..Munið að alltaf þarf að taka veikan eða slasaðan fugl frá hinum fuglunum annars er hætta á að hann verði drepin. Best er að eiga gott búr,aukabúr sem tekur einn fugl eða svo. Þar getur maður sett veikan fugl á meðan á meðferð stendur og fuglinn þarf að vera sér um tíma. Hundabúr eða eitthvað heimasmíðað hentar t.d. vel. Festið búrið á vegg eða hafið á borði þar sem þægilegt er að nálgast fuglinn og vinna með hann.

 

Notið ALLTAF einnota hanska þegar verið er að höndla veikan eða slasaðan fugl. Margir sjúkdómar geta nefnilega borist með manninum í aðra fugla.Hægt er að fá ýmsar gerðir af hönskum víða í verslunum og t.d. eru seldir pakkar með 100 hönskum í Rekstrarvörum og kostar pakkinn frá um 1200 kr og uppí um 2000 kr. Fer eftir hvernig hanska maður velur sér.Eigið til öll nauðsynleg lyf eins og "súlfa",B vítamín, kalk,penecilline,Duphacycline,E vítamín,matarolíu,edik og spritt. Einnig þvottafat.sprautur,nálar,tuskur,bómull,pensil,spraybrúsa og matarolíu. Eigið langt og mjótt prik fyrir eggjastíflu og notið það ekki í neitt annað,Sótthreinsið allltaf öll áhöld og annað í hvert skipti eftir notkun. Notið aldrei áhöld eða annað sem þið hafið fyrir fuglana í eða á önnur dýr nema þvo áhöldin eða verkfærin vel fyrst og sótthreins þau vel og það sama gildir um hin dýrin. Notið aldrei áhöld frá öðrum dýrum í fuglana heldur nema hreinsa.þvo og sótthreinsa þau vel eftir notkun.

Varfærni og hreinlæti skiptir öllu máli hvernig til tekst .

 

Umhirða og þrif.

 

Fuglarnir sjá um að þrífa sig sjálfir ef þeir komast út eða hafa aðstöðu innandyra .Ef fuglarnir geta verið úti er minni vandi að halda þeim hreinum en þeir þurfa þá að komast í mold sem er blönduð sandi til að baða sig upp úr. Og þá þarf líka að vera þurrt í veðri.

Ef fuglarnir fá ekki að fara út vegna aðstæðna þarf að vera bakki eða önnur aðstaða fyrir þá þar sem sett er blanda af mold og sandi fyrir þá til að baða sig í. Með þessum böðum er fuglinn að hreinsa húðina og fiðrið meðal annars af óværu (lýs og flær). Þá er líka hægt að baða fuglinn uppúr vægri blöndu af volgu vatni og grænsápu ef mikið ber á fló eða lús á honum.

 

En ef það er gert er mjög áríðandi að þurrka fuglinn vel á eftir og passa að honum verði ekki kalt. Einnig þarf að athuga hvort klærnar séu eðlilegar en þær eiga að slitna nóg til að haldast í góðu lagi ef fuglinn getur rótað nóg og hefur nógu grófan jarðveg til að róta í. Ef klær eru orðnar of langar eða bognar getur fuglinn orðið haltur og gengur ekki eðlilega og fer að sjá á honum. Þetta gerist ef of mjúkt er undir hjá fuglinum og hann kemst ekki í grófan jarðveg til að róta,hvorki inni eða úti.

 

Fuglinum er eðlilegt að róta allan daginn,hann er stöðugt að leita eftir skordýrum og öðru til að éta ásamt því að búa til holur svo hann geti legið þar og baðað sig eða í þeim eða hvílt sig. Svo ef klærnar eru orðnar of langar og bognar þá þarf að stytta þær og klyppa.Takið því fuglinn upp og haldið honum að ykkur með annarri hendi og klippið klærnar í ca 1 cm.lengd með góðri og beittri töng. Passið að fara ekki of nálægt svo ekki blæði úr. Ef þið klippið of nálægt og það fer að blæða getur fuglinn orðið haltur fyrir utan að hann fær ekki frið fyrir hinum fuglunum. Takið hann því frá í nokkra daga á meðan þetta grær. Þó fuglinn sé slæmur í fiðri (mikið ber) þarf það ekki endilega að þýða að hann sé með lús eða fló. Hann getur verið að fara úr fiðri og það getur verið of heitt í húsinu.

 

En gott er samt að athuga þetta svona við og við. Fuglinn gerir ekki miklar kröfur en aðbúnaður þarf að vera góður,bæði fyrir hirðirinn og fuglinn sjálfan. Þá líður öllum vel. Fugl sem er í góðu fiðri og með eðlilegar klær líður vel. Annað sem kemur að umhirðu á fuglinum er goggurinn. Á sumum fuglum vex goggurinn á víxl og getur þetta háð fuglinum að taka eðlilega til sín fæðu. Þá þarf að klippa gogginn til en fara verður mjög varlega að þessu svo ekki blæði úr. Hafið góða töng í hendinni,fáið einhvern til að halda á fuglinum fyrir ykkur ef það er hægt að koma því við og klippið framan af báðum endum á efri og neðri hluta goggsins,passið að taka ekki of mikið en helst að því svæði þar sem goggurinn byrjar að víxlast ef það er mögulegt. Þegar goggurinn svo vex aftur ætti hann að vaxa beinn.

 

Goggurinn getur einnig vaxið þannig að efri hlutinn á honum vex framfyrir neðri hlutann (eins og á páfagaukum) og þarf þá að klippa framan af efri hluta goggsins .Beitið sömu aðferð og að ofan greinir með góðri töng og klippið þvert af gogginum þar sem hann byrjar að vaxa framfyrir neðri hlutann og bogna. En farið varlega og haldið fuglinum grafkyrrum meðan klippt er. Þegar vaxa fer framan á goggin á ný ætti hann að verða beinn. Sömu aðferð má beita ef einhver er í vandræðum með hænu sem étur egg. Sumar hænur taka uppá því að höggva í eggin þar til þau brotna og éta svo innan úr þeim.

 

Erfitt getur verið að stoppa þetta af en gott ráð við þvi er að stytta fremsta hlutann á efri hlutanum á gogginum. Klippið þvert framan af efri hlutanum með beittri töng þannig að neðri hlutinn nái nokkra millimetra framfyrir þann efri. Ef þetta er klippt svona getur fuglinn ekki hoggið eggin og alls ekki brotið skurnina. Þegar goggurinn vex svo aftur ætti fuglinn að vera búinn að gleyma þessu framferði. Nú svo má settja bara gólfkúlu eða hvítmálaðan stein í hreiðrið og hafa það í nokkrar daga. Hænan hættir að reyna að brjóta þetta "egg" sem og önnur eftir nokkur högg í nokkra daga.

Enda sjálfsagt orðin ringluð og kominn með hausverk:)

Gangi ykkur vel.

 

 

 

 

  • Wix Facebook page

 

Júlíus Már Baldursson

Landnámshænan ehf / Þykkvabæ / 851 Hella / Símar 481-3348 /861-3348 / Fax 481-3349 landnamshaenan@landnamshaenan.is