Ræktun og markmið.

 

Upphaflegi hænsnastofninn hér á bænum (áður Hóli í Hvammssveit) er kominn frá RALA á Keldum árið 1978 og voru það fuglar sem Dr.Stefán Aðalsteinsson safnaði saman af landinu, þó mest frá Norðausturlandi, Austfjörðum og eitthvað frá Suðausturlandi. Var þetta gert til að forða þessum stofni frá útrýmingu eins og stefndi í.

 

Hluti af þessum samansafnaða stofni kom til mín(12 fuglar)og hinn fór að Hvanneyri og síðar frá Hvanneyri að Steinum II.(fyrir mörgum árum keypti ég svo 10 unga frá Steinum II og setti saman við fuglana hjá mér) til að blanda saman við minn stofn og koma í veg fyrir of mikinn skildleika í ræktuninni.

 

Á þessum tíma og nokkrum árum áður voru nefnilega hvíti og brúni ítalinn yfirgnæfandi á flestum bæjum til sveita og héldu fáir orðið í íslensku landnámshænuna (haughænsnin eins og þau voru oft kölluð). Þetta var vegna þess að ítalinn þótti verpa betur og meira en íslenska Landnámshænan.

 

Þetta er rétt en hafa ber í huga að ítalinn er ræktað afbrigði og framleiddur sem verksmiðjufugl og er því "úrbræddur" um rúml. 2ja ára gamall en Landnámshænan ekki. Einnig hafði það áhrif á varp íslensku Landnámshænunnar að henni var nær eingöngu gefnir afgangar úr bænum og sumstaðar smá mjöl með en ekki varpkögglar.

 

Annað fóðut var ekki í boði á flestum bæjum. Þegar svo hvíti ítalinn kom á flesta bæi var farið að kaupa varpköggla í meira mæli og er því samanburðurinn og viðmiðunin á þessum fuglum alls ekki sanngjarn,hvorki ítalans vegna né íslensku Landnámshænunnar.

 

Íslenska Landnámshænan er mun harðgerðari, þolir betur en ítalinn að vera úti, þolir veðráttuna betur, þolir kaldari hús og allar aðrar breytingar, t.d. fóðurbreytingar, án þess þó að tapa niður varpi eins og ítalinn gerir.Og íslenska Landnámshænan getur vel skilað allt að 280-300 eggjum á ári ef vel er hugsað um hana.

 

 

Hugsjónin.

 

Sjálfur fór ég í þessa ræktum af áhuga fyrir þessum stofni og af hugsjóninni einni saman þar sem ég vildi alls ekki að við töpuðum stofninum frá okkur vegna innfluttu hænsnanna.

 

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessum fuglum, eðli þeirra, hegðunog fjölbreytileika sem prýðir íslensku Landnámshænuna.

Ekki skemmir fyrir að þetta eru margbreytilegir einstaklingar,engir tveir fuglar eru eins og litirnir einstaklega fjölbreytilegir.

 

Þó er svarti og dökk brúni liturinn ríkjandi. Svo má ekki gleyma því að þetta telst til eins af menningararfs okkar eins og annar íslenskur búpeningur sem við megum ekki glata frá okkur og er því íslenska Landnámshænan verðmæt sem slík.

Höfum það í huga þegar við fáum okkur hænur og blöndum ekki öðrum tegundum saman við hana.

 

Munum hvernig fór fyrir Geirfuglinum hér við land árið 1874.

 

 

Ræktunin.

 

Við ræktun ber að hafa í huga að grunnlitur hanans segir mikið til um hvernig lita unga hann gefur það er ef fólk er að reyna að ná í sértakan lit.Er þá farið eftir því hvernig haninn er litur á bringunni og niður á milli fótanna.Hani sem er svartur á þessu svæði gefur svarta unga eða dökka,hani sem er grár eða með gráa tóna gefur grátt og ljós hani gefur ljósa tóna.

 

Þetta fer þó líka eftir lit hænunnar en ef fólk vill t.d. fá gráan lit í stofninn hjá sér hafið þá hana sem er með gráan grunnlit og notið hann á gráar eða ljósar hænur.Gott er svo að skipta út hananum fjórða til fimmta hvert ár eða svo ef settir eru á ungar á hverju ári undan sama hananum.Það kemur þá í veg fyrir of mikla skildleikaræktun í stofninum og minnkar möguleikana á að fá bæklaða unga.

 

Hænsfuglar þola þó skildleikaræktun mun betur en flestur annar bústofn og fuglarnir eru ekki mjög viðkvæmir fyrir því.Skiptið samt reglulega út hananum svo þið sitjið ekki uppi með flesta fugla svipaða á litin og munið að dökki liturinn er ráðandi en ljósi liturinn er víkjandi.

Þess vegna er gott að hafa fyrstu árin dökkan hana og skipta svo yfir í ljósan hana eftir nokkur ár og þannig koll af kolli.

 

Markmið.

 

Markmið mitt er sem sagt að halda íslenska hænsnastofninum eins hreinum og hægt er og blanda hann ekki öðrum stofnum.Að dreifa fuglinum sem víðast um land bæði í sveitir,bæi og borg.Aðrar hænsnategundir hafa aldrei blandast saman við stofninn hjá mér og aldrei verið í sama húsi.Markmiðið er að hafa á boðstólum unga og kjúklinga til sölu frá því snemma á vorin og fram eftir vetri, fallega og heilbrigða fugla á öllum aldri, í sem flestum litum og með allar gerðir af kömbum.

 

Fjölbreytileikinn er skemmtilegur og skiptir líka miklu máli og hefur áhrif þegar fólk tekur ákvörðun um að hafa Landnámshænunaog ekki skemmir litadýrðin fyrir heldur.

 

Erfitt getur verið að halda stofni hreinum ef fengnir eru fuglar annarsstaðar frá þar sem tveimur eða fleiri ólíkum tegundum hefur kannski verið blandað saman í gegnum tíðina og á alls ekki að selja slíka fugla sem hreina fugla af Landnámshænsnakyni.

 

 

Mottóið er:

 

Fallegir og heilbrigðir fuglar, góður og stoltur ræktandi og ekki síst hamingjusamur og ánægður kaupandi (eigandi).

Það er besta auglýsingin.

 

Gangi ykkur vel.

 

Júlíus Már Baldursson

Landnámshænan ehf / Þykkvabæ / 851 Hella / Símar 481-3348 /861-3348 / Fax 481-3349 landnamshaenan@landnamshaenan.is 

 

 

  • Wix Facebook page

© 2023 by Name of Template. Proudly created with Wix.com