Aðbúnaður fuglanna.

 

Oft er fólk að spá í og spyrja um hænsnakofann, aðbúnað o. fl. er viðkemur fuglunum.Ætla ég að fara yfir það helsta í því sambandi og gefa upplýsingar sem hægt er að miða við eða fara eftir. Athugið að öll mál sem gefin eru upp eru þau sem hafa hentað best og samkvæmt minni eigin reynslu.

 

Að fá sér Landnámshænsni.

 

Þegar fólk ákveður að fá sér hænsni þarf að að leiða hugann að mörgu og því hvar fuglarnir eigi að vera, hvort það sé til hús eða kofi fyrir þá eða hvort þurfi að kaupa hús eða hvort smíða eigi hús fyrir fuglana á staðnum og hversu marga fugla fólk ætlar að vera með. Hænsnahúsið eða kofinn þarf helst að vera á stað þar sem er rólegt og ekki mikil umferð í kring. Best er að hafa hænsnahúsið bakatil í görðum eða þar sem ekki er mikil umferð af bílum eða gangandi fólki.

 

Fuglarnir eru frekar viðkvæmir og þola eða vilja ekki mikla umferð í námunda við sig. Einnig þarf að athuga hvort fólk er með blóma eða matjurtagarð eða garða og hvort það hentar að hafa hænsnahúsið við garðinn eða í fjarlægð frá honum. Svo þarf að líka að huga að því hvort hænsnin geti verið laus og frjáls útivið eða hvort girða þurfi við eða í kringum húsið sjálft og þá hvernig.

 

Sjálfsagt er að tala við nágranna ef þeir eru til staðar og láta þá vita ef taka eigi hænsni og einnig að athuga hvort nágrannarnir séu með eða haldi kött eða hund. Athugið að ef hænsnin eiga að vera laus getur þeim verið hætta búinn ef nágranninn er með hund sem ekki er vanur að umgangast fugla. Passið að hundur komist ekki í námunda við fuglana og ekki heldur að girðingunni sem umlykur húsið ef þannig háttar til þar sem fuglarnir geta orðið mjög hræddir ef geltandi hundur stendur yfir þeim. Jú það er nefnilega að mörgu að hyggja ef það á að fá sé hænsni og fólk þarf líka að hafa tima fyrir þau eins og önnur gæludýr sem það heldur.

 

Hænsnakofinn .

 

 

Stærð hússins fer eftir því hversu margir fuglar eiga að vera í því. Þumalputtareglan er sú að miða við 4 - 5 fugla á hvern fermetra og er átt við gólfflötinn í húsinu, þannig að ef fólk ætlar að hafa 10 fugla,þarf a.m.k. 2 fermetra, 20 fuglar þurfa a.m.k. 4 fermetra o.s.frv.Betra er samt að miða við lærri töluna og hafa plássið frekar rúmt en þröngt.Of þröngt hús eykur á áreitni og vandamál og það getur of stórt hús gert líka. Húsið þarf að vera hlýtt, halda vatni og vera laust við trekk.

 

Passið að hafa húsið ekki of heitt og ekki má frjósa í því. Kjörhiti fyrir hænur er um 7-9 gráður eða svo en má fara niður í frostmark á köldustu dögunum án þess að gera skaða eða svo framarlega sem ekki frýs vatn. Of mikill hiti í húsinu gerir það að verkum að fuglinn verður slæmur í húðinni,fær frekar fló,missir fiðrið frekar og lítur ekki vel út.

 

Enginn vil hafa eða eiga hænu sem er ber á bakinu,hálsinum eða afturendanum ásamt því að vera stéllaus. Ljós þarf að vera í húsinu í mesta skammdeginu hér á landi og er gott að hafa 15 W peru eða sparperu, sem logar hjá fuglunum í allra mesta skammdeginu. Myrkur má vera í 8 tíma á sólarhring hjá hænunum og hvílast þær þá betur fyrir bragðið.

 

Þar sem hænsnfuglar lifa viltir úti í náttúrunni setjast þeir alltaf uppí greinar eða á hæsta punkt vegna öryggis og vegna aðsteðjandi hættum.Næturmyrkrið er yfirleitt um 8 timar. Ef ekki er ekki ljós hjá hænunum í mesta skammdeginu hér á landi þá hætta þær að verpa og byrja ekki aftur varp fyrr en dag fer að lengja á ný. Þó fara hænur oftast í hvíld eftir fiðurskiptin og byrja svo varp aftur eftir 3-4 vikur.  Það er eðlilegt en tímabilið lengist í báðar áttir ef ekki er ljós hjá þeim. .

Girðing,prik og aðbúnaður.

 

Ef fólk er með matjurta eða blómagarð er gott að hafa girðingu við húsið eða kringum það, því hænurnar sækja mikið í þessa garða til að tína orma og skordýr. Hænur róta mikið, baða sig í moldinni til að losna við óþrif úr fiðrinu og liggja þar í sólbaði og gera oft mikinn skaða og usla í görðum. Eftir eina hænu getur komið stór og djúp hola eftir daginn og er rétt hægt að ímynda sér það ef fuglarnir eru 10 eða fleiri í garðinum.

 

Blómin eða matjurtirnar færu fyrir lítið á mjög stuttum tíma. Best hefur mér reynst að nota plasthúðað garðanet, 110-120 cm á hæð. Hænurnar fljúga ekki yfir það ef það er ekki haft timburborð efst,aðeins netið. Hænsnin eru talinn til ófleygra fugla og nota mest stökkkraftinn til að lifta sér upp (sem sagt fæturnar) en halda jafnvægi með vængjunum svo ef það er haft timburborð efst á girðingunni mun fuglinn stökkva upp á borðið og niður hinu megin en ef bara netið er haft þá getur fuglinn ekki lent á því þar sem það ruggar til og hann hættir að reyna að komast yfir netið. Hæna getur aldrei stokkið frá jörðu,yfir netið og lent hinu megin við það.

 

Prik þurfa svo að vera í kofanum því að fuglinum er eðlilegt að sitja uppi á daginn og næturnar þegar hann hvílist. Fuglar leita alltaf á hæsta punkt vegna aðsteðjandi hættu og vegna öryggis og er þeim það eiginlegt frá náttúrunnar hendi. Prikið þarf að vera úr tré, traust og vel fest upp. Ekki er gott að nota kústskaf eða slíktt þar sem sívalt prik fer illa með fætur fuglanna, betra er að nota timburborð sem er ca . 1,5 x 1 til 1 eða 1x1, 5 í þvermál (hér er átt við tommur 2,5 cm x 4 cm) . Festið prikið eða prikin vel upp og gott er að hafa þau frekar hátt uppi, ef húsið leyfir. Þægilegast er ef hægt er með góðu móti að komast undir prikinn án þess að þurfa að beygja sig mikið,bæði vegna eggja sem geta verið á gólfinu og eins þegar mokað er undan prikunum og húsið er hreinsað.

Varphólfin.

 

Varphólf (varpkassar) þurfa að vera til staðar svo hænan verpi eggjunum ekki á gólfið, þá brotna eggin líka síður. Miðað er við að eitt hólf sé fyrir 4 hænur. Hólfið eða hólfin þarf að hengja upp á vegg, ca.1-1,5 metra frá gólfi en má vera aðeins hærra og lokað þarf að vera á milli hólfa. Gott og nauðsynlegt er að hafa prik fyrir framan hólfin. Það auðveldar fuglinum að komast upp og í þau. Stærð hólfsins þarf að vera 25 x 25 cm og 30 cm að dýpt (frá vegg), þetta er hentug stærð fyrir einn fugl í einu og minni hætta á að tvær hænur reyni að verpa samtímis í hólfið. Annars má búast við því að þær áreyti hvor aðra og brjóti eggin.

Hafið sag (spæni ) eða þurrt hey í hólfunum og skiptið reglulega um. Þá ættu eggin að haldast vel hrein og hænunum að líða vel. Gott er að skipta á ca.10-14 daga fresti. Það er auðvelt að sjá þegar tími er kominn til að skipta. Hafið sag (spæni) eða þurrt hey á gólfinu og skiptið reglulega um það líka. Það er miklu betra fyrir mann sjálfan og ekki síður fuglana að húsið sé þurrt, því að þá er ekkert sóðalegt að hirða um fuglana. Fuglunum líður líka betur, skila betri arði og þú og fuglarnir eruð ánægðari.

 

Ekki má gleyma því að lúga þarf að vera á vegg eða hurð til að hleypa fuglunum út að degi tl ef aðstæður leifa. Betra er að hafa lúgu en að hafa hurðina opna þar sem opin hurð hleypir frekar inn skordýrum og öðrum aðkomu dýrum og húsið kólnar frekar ef svalt er í veðri og vindur. Þá rignir ekki inn um lúguna eins og hurðina ef veður eru þannig þar sem hún er mún minni og húsið helst frekar hlýtt og þurrt þannig. Ef lúga er sett á vegg er best að hafa hana í um 50 cm hæð frá jörðu og braut fyrir hænurnar til að fara upp í hana og niður að innanverðu. Hægt er á útbúa lúguna þannig að hafa rennihurð á henni sem rennt er niður á kvöldin þegar fuglarnir eru komnir inn og sestir uppá prík. Einnig er hægt að hafa lúguna staðsetta á hurðinni sjálfri og þá er best að hafa hana neðst á hurðinni. Munið bara að loka lúgunni á kvöldin þegar fuglarnir eru komnir inn.

Fóður og vatnsílát.

 

Fóður og vatnsílátin ættu að vera á stalli (palli) eða hanga uppi og er miðað við að botn ílátsins sé í sömu hæð og bak fuglsins.Sé þetta haft svona eru minni möguleikar á að fuglinn geti rótað því út úr ílátinuog spillt fóðrinu niður. Fóðrið er dýrt og best er að það endist sem lengst og haldist sem hreinast. Best er að hafa ílátin það stór að hægt sé að hafa fóður til nokkurra daga hjá fuglunum því sé það gert er ekkert mál að skreppa frá t.d. yfir helgi og þá er heldur engin hætta á að einhverjir fuglar komist ekki í fóður vegna eineltis.

 

Fuglar sem eru neðarlega í virðingarstiganum fara oft ekki í fóður og vatn vegna óöryggis eða hræðslu fyrr en hinir fuglarnir eru sestir uppá prik seinni part dagsins. Sé fóðurílátið tómt að morgni ber það vott um að fuglarnir séu ekki að fá nóg,aukið fóðrið og stækkið ílátið sé þess þörf.Betra er að hafa of mikið fóður og of stórt ílát en of lítið. Engin hætta er á að fuglarnir éti yfir sig eins og mörg önnur dýr gera sem komast í of mikið fóður,þeir éta bara eftir þörf.Fullorðinn fugl þarf um 100-120 gr af fóðri á dag og til að finna út rétta stærð á íláti undir fóðrið er bara að margfalda þetta magn með fjölda fugla.Sem dæmi ef fólk er með 10 fugla þarf ílátið að taka lágmark 1,2 kg en betra er að hafa það stærra eins og áður sagði.

 

Gott er ef vatnið væri sjálfvirkt þar sem því verður við komið því þá er engin hætta á að fuglana skorti vatn. Hænsni verða alltaf að komast í nóg af fersku vatni þar sem fuglinn er um 39 gráðu heitur og er aldrei kyrr . Hann eyðir því mikilli orku á hverjum degi og þarf mikið og drekkur mikið vatn. Fuglinn brennir miklu og hitnar upp og er aldrei kyrr eins og áður sagði nema þegar hann situr uppi á prikum síðdegis og á kvöldin.Sé vatnið ekki sjálfvirkt er gott að miða við 500 - 750 ml.á hvern fugl á sólarhring og er þetta þá margfaldað með fjölda fugla til að fá fram rétta stærð á vatnsílátinu. 10 fuglar þurfa þá að hafa ílát sem tekur 5-7 lítra lágmark eða tvö ílát sem taka 3,5 lítra hvort. Mjög áríðandi er að skipta um vatn á hverjum degi svo það sé alltaf ferskt og gott,óhreint vatn er sýklaberi og ekki holt fuglunum.

Annað fóður.

 

Hænsn eru alætur og éta meira að segja hvort annað. Já ljótt en satt. Ef fugl deyr í húsinu yfir nótt er hann plokkaður að morgni og búið að éta allt innan úr honum,í mörgum tilfellum er líka búið að éta stóran part af holdinu.

Alla afganga frá heimilinu ætti að nota og gefa hænunum í sértakt trog eða ílát sem haft er hjá þeim.

 

Bæði fær fuglinn mikið af vítamínum og steinefnum úr þessum afgöngum og heimilið losnar við að setja þetta í ruslið svo það er gróði fyrir alla að nýta afganga í hænsnin.Gefa má hænum brauð,kökur,kjöt,fisk,sósur.súpur,grauta,grænmeti,ávexti,allt korn og bara allt er til fellur frá heimilinu.

 

Má segja að hænsni séu lifandi endurvinnslur þar sem dritið úr þeim er einn besti áburður sem hægt er að fá á allan gróður,bæði á tré,runna,í beð,á blóm og matjurtir Séu spænir á gólfinu hjá fuglunum sem er jú besti undirburðurinn þá blandast dritið saman við þær og svo fer allt út í garð eða í ker og potta.

 

Afganga úr garðinum þegar uppskerann er tekin upp má svo gefa í hænunum sem drita því á ný saman við spænirnar og það fer aftur út í garð....Spænir eru jú komnar af trjám og verða svo aftur að mold og dritið kemur af því sem fuglinn étur ........hringrás sem er vistvæn,holl og góð. Sé þessi áburður notaður í garða þarf ekki annan áburð og sparast þar með mikill peningur. Sem sagt ....gefið hænunum alla afganga frá heimilinu en gefið þeim bara vissan skammt yfir daginn. Séu mikilir afgangar og þeir eru allir settir til fuglanna í einu þá éta hænurnar afgangana fyrst og þá á kostnað varpkögglanna sem dregur þá úr varpi. Hafið afgangana því sem aukabita en ekki sem aðalfóður ef þið viljið halda varpinu.

 

Vítamín og steinefni.

 

Gott er að gefa hænunum lýsi saman við fóðrið en þar fá þær ýmis vítamín og það kemur í veg fyrir að þær séu berar og tætingslegar. Fyrir utan að þær verða heilbrigðari og sterkari.Blandið lýsinu saman við afgangana frá heimilinu og gefið þetta í trogið sem þið ætlið undir afgangana. Einnig er gott að gefa hænunum B vítamín og best hefur mér reynst að kaupa Sterkar B kombin töflur í næstu búð og lleysa þær upp í vatni.

 

Takið eina töflu,setjið hana í i lítra ílát og fyllið með vatni og látið töfluna leysast upp í þessu yfir nóttina. Gefið svo um 1 dl af þessu útí hverja 5 lítra af vatni .Þetta er til að hressa fuglana og kemur í veg fyrir slappleika í þeim ef svo ber undir. Skammturinn þarf að vera stærri ef fugl er lasinn eða slappur en slappur fugl ber oft merki um B vítamín skort.

 

Einnig er gott fiðursins vegna að gefa hænunum smávegis af fiskimjöli en í roðinu af fiskinum eru sömu efni og í fjörðunum fyrir utan að í fiskimjölinu er mikið af vítamínum sem er fuglinum holt að fá. Aðeins þarf að gefa örlítið af fiskimjölinu og gott er að sáldra því saman við afgangana frá heimilinu í afganga dallinn(trogið) Munið bara að gefa rétt um hnefa af fiskimjölinu á dag svo ekki komi fiskikeimur(bragð) af eggjunum .

Sjálfsagt er svo að láta fuglana hafa frjálsan aðgang í skeljasand,þar fær hann bæði mikið af steinefnum og kalki sem er honum nauðsynlegt vegna skurnmyndunar utan um eggið því þó hænan framleið mikið kalk sjálf getur hana skort það af ýmsum ástæðum og þá kemur skeljasandurinn í veg fyrir slíkan skort.

Hvar fást fóður,vatnsílát,varphólf og annað efni ?

 

Góð fóður- og vatnsílát er hægt að kaupa í flestum verslunum sem selja búvörur, má þar t.d. nefna Lífland, Vélaborg, KB fóðurvörur ,Fóðurblönduna,Jötunn vélar og á fl. stöðum.

Efni í prik má fá í Byggingavöruverslunum og góð og falleg varphólf má fá smíðuð eftir stærð hjá Blikkás-Funa í Kópavogi og öðrum blikksmiðjum ef fólk vill. Hólfin sem sjást hér á síðunni eru frá Blikkás-Funa. EInnig er hægt að smíða hólfin úr timbri ef fólk er handlægið.

Munið bara að hreint, þurrt og bjart hús, nóg fóður og vatn er sama og hamingjusöm hæna, sem líður vel og skilar arði og síðast en ekki síst ánægður eigandi.

  • Wix Facebook page

 

Júlíus Már Baldursson

Landnámshænan ehf / Þykkvabæ / 851 Hella / Símar 481-3348 /861-3348 / Fax 481-3349 landnamshaenan@landnamshaenan.is 

 

 

© 2023 by Name of Template. Proudly created with Wix.com