Uppeldi og fóðrun

 

Nýklaktir ungar.

 

Eins og sagt hefur hér annarsstaðar þá eiga ungarnir að vera orðnir þurrir og sprækir áður en þeir eru teknir úr vélinni og færðir á þann stað sem þeim er ætlað að vera á. Gott er að flytja þá ekki fyrr en á öðrum sólarhring eftir að þeir koma úr eggjunum. Munið að unginn er með forða úr rauðunni í maganum sem dugar honum í tvo sólarhringa eftir að hann kemur úr egginu og á meðan tekur hann hvorki vatn né fóður.

Ath. að eftir að ungarnir hætta að vera undir hitaperunni á 3.-4. viku þá þarf að vera meira pláss hjá þeim, annars er hætta á að þeir hnappi sér saman og einhverjir kafni eða kremjist undir. Þrengsli geta líka orsakað áreitni og plokk og þið sitjið þá uppi með reytta og bera unga. Fiðrið kemur jú aftur þegar fram líða stundir en þetta er ljótt að sjá. Plokk þekkist þó vel og er alltaf eitthvað til staðar.

 

Fyrstu 7 vikurnar er ungunum gefið fóður sem heitir Byrjunarfóður fyrir lífkjúklinga eða Ungi I (fer eftir framleiðanda ) og eftir það er þeim gefið Framhaldsfóður fyrir lífkjúklinga eða Ungi II, þar til þeir eru 16 vikna , þá fara þeir á fóður sem er ætlað kjúklingum 16 - 40 vikna (vaxtarfóður) eða beint á varpfóður.

 

Misjafnt hvað hver og einn gerir í því sambandi. Best þykir mér sjálfum að gefa kjúklingum vaxtafóðrið fram að 20.viku til að fá meiri stærð og þroska í fuglana því lengi býr að fyrstu gerð eins og sagt var hér áður fyrr og það hefur ekkert breyst.

 

Fyrstu 7 vikurnar.

 

Nýklakktir ungar þurfa um 25 g af fóðri á dag ef það er skammtað og þá er bara margfaldað með fjöldanum t.d. 10 ungar x 25 g gera 250 g og svo koll af kolli. Athugið ef ílátið er tómt á milli mála þá eru ungarnir ekki að fá nóg og þarf þá að auka fóðrið og einnig að passa að ungarnir geti ekki velt ílátunum eða spillt fóðrinu á annan hátt. Fylgist vel með að ungarnir fái nóg fóður og aukið skammtinn eftir því sem þeir eldast.

 

Þegar ungarnir eru orðnir 3-4 vikna gamlir eru þeir orðnir alfiðraðir og hafa fjórfaldað stærð sína, þá þurfa þeir ekki lengur að vera undir hita( hænan sjálf er hætt að liggja á þeim á þessum tíma) Þá fara þeir að taka meira fóður til sín, stækka ört og brenna miklu.

 

Á þessum tíma er gott að áætla um 40-50 g á hvern fugl. Og munið að ungarnir þurfa að vera á ungafóðri I (byrjunarfóðrinu) alveg til 7 vikna gamlir. Þetta fóður er lífsnauðsynlegt fyrir þá fyrstu vikurnar. Og á þessum aldri er goggunarröðin og áreytið byrjað.

 

Næstu 8-16 vikur.

 

Nú er skipt yfir í Unga II eða framhaldsfóður þegar ungarnir eru orðnir 7-8 vikna gamlir og magnið aukið í 50-60 g á fugl eða svo. Á Unga II (framhaldsfóðrinu) eru ungarnir á því þar til þeir eru 15-16 vikna og þá er enn skipt í Uppeldisfóður fyrir lífkjúklinga og eru þeir á því fóðri fram til 40 vikna gamlir. Sumir sleppa þessu fóðri og láta kjúklingana 16 - 20 vikna gamla á varpfóður.Það kemur ekki að sök og verður hver og einn að ráða því hjá sér hvað hann gerir en athugið að því fyrr sem kjúklingarnir byrja á varpfóðri þá dregur það úr þroska þeirra og þeir verða ekki eins þroskamiklir og stórir en ella.Ungunum og kjúklingum má gefa brauð og afganga frá heimilinu með fóðrinu, ef fólk vill en þeim er nauðsynlegt að fá rétt og gott fóður í uppvextinum.

 

Hafið þá brauðið og afgangana sem auka bita, það gerir fuglunum ekkert til, þeir verða bara stærri og fallegri fyrr ef eitthvað er ef þetta er gefið með aðalfóðrinu en ekki gefa þeim brauð og afganga sem aðalfóður. Það kemur niður á þeim í uppvextinum og hefur áhrif á þroska þeirra. Sjálfur miða ég alltaf við að kjúklingar séu á fóðrinu Unga II þar til þeir eru 20 vikna gamlir svo þeir nái sem bestum og mestum þroska fyrir framtíðina því eins og áður var sagt....lengi býr að fyrstu gerð ......og á það enn vel við í dag.

 

Á 6. mánuði og fram til 7. mánaðar fara svo kjúklingarnir að verpa og kallast þá unghænur (alltaf gott að bera titil). Þetta er misjafnt eftir einstaklingum hversu snemma fuglinn byrjar varp. Fyrst kemur eitt og eitt lítið egg sem kallast unga egg og fer þeim svo fljótlega að fjölga og stækka upp frá því. Hænur verpa best við 7-14 gráðu hita. Fari hitastigið neðar en 7 gráður fer varpið að minnka og hættir alveg við 0 gráðurnar.

Ef hitastigið fer hærra en 14 gráður fer varpið hríð minnkandi og hættir alveg við 18-20 gráður og þá er einnig hætta á að fuglin fá bæði óþrif í húð og fiður. Of hátt hitastig veldur því að fuglinn fer að missa fiður og verður tætingslegur og ber. Það er því skárra að hitastigið lækki en hækki, því þó fuglinn hættir varpi þá heldur hann fiðrinu og fær ekki óþrif í sig við lægra hitastig.

 

En lang best er að geta haldið hitastiginu hjá fuglunum innan þessara marka allt árið. Best er ef fuglarnir hafa frjálsan aðgang í fóðrið og geta skammtað sér það sjálfir, þá er alveg öruggt að þeir fái nóg. Sú ráðstöfun er einnig mjög góð vegna fugla sem eru neðst í goggunarröðinni,þeir fuglar geta þá komist í fóðrið þegar færi gefst. Þegar svo kjúklingarnir eru orðnir 16 vikna þarf að áætla um 80-100 g á fugl á dag og fullorðinn hæna þarf um 120 g af fóðri á dag (sólarhring).

 

Munið að hæð ílátsins er alltaf miðuð við bakið á fuglunum. Hengið ílátið upp og látið botninn á því vera í sömu hæð og bak fuglsins, þá kemst hann óáreittur í fóðrið og getur ekki spillt því eða rótað því út. Munið bara að hækka ílátið eftir því sem fuglinn vex. Og munið að láta fuglinn alltaf komast í nóg gott og fersk vatn. Fuglinn er heitur,er alltaf að og brennir miklu og tapar þar af leiðandi miklum vökva yfir daginn. Gott er að miða við um 500 -750 ml. á hvern fugl yfir sólarhringinn. Góð og vönduð fóður og vatnsílát má fá í öllum verslunum með búvörur, t.d. MR búðinni (Líflandi) KB verslunum, Vélaborg og Arnarbergi.

 

ATHUGIÐ!!!!!

 

Í Byrjunarfóðrinu fyrir unga eru efni og lyf sem eru ungunum nauðsynleg fyrstu vikurnar, fóðrið er því EITRAÐ og ætti alls ekki að neita eggja eða kjöts úr hænum sem komist hafa í þetta fóður, passið að vera ekki með þetta fóður þar sem hænurnar ná til þess. Ungahæna verpir ekki svo ekki þarf að óttast um egg frá henni.

 

Og hún þarf ekki að vera á sérfóðri á meðan hún er með unga, hún étur sama fóður og þeir gera. Fóðrið er hættulegt öllum öðrum dýrum og þó sérstaklega hrossum og hundum,geymið því fóðrið þar sem önnur dýr komast ekki í það. Munið að hafa hreint, þurrt og bjart hjá ungunum og fuglunum almennt, engum fugli eða dýri líður vel í raka, bleytu eða myrkri, sem sagt, þurrt hey eða sag (spænir), nóg fóður og ferskt vatn á hverjum degi.

 

Best er að ef ungarnir geta haft frjálsan aðgang í fóður, þá sjá þeir sjálfir fyrir dagsþörfinni og er það gert með því að hafa ílát hjá þeim sem taka mikið magn í einu en þau verða þá að vera þannig að fuglinn geti ekki rótað fóðrinu uppúr ílátinu og spillt því. Fóðrið er jú dýrt og hefur hækkað mikið sl.ár. Góð ílát fyrir vatn og fóður fást orðið víða í verslunum með búvörur eins og að ofan er getið.

 

Og eitt enn.......ungar eru fallegir og mikil "krútt" en þeir eru viðkvæmir og lifandi verur,þeir eru því ekki leikföng fyrir börn.

 

Ungar á misjöfnum aldri.

 

Ef fólk er með unga á misjöfnum aldri og vill setja þá saman í einn hóp og þeir eru enn á sama fóðri þá á það að vera í lagi en fylgist vel með svo yngstu ungarnir verið ekki útundan í fóðri og vatni.

Einnig verður að passa að yngri ungar verið ekki fyrir áreyti af eldri ungum því það getur kostað þá lífið. Það er gott að merkja ungana svo auðveldara sé að þekkja þá í sundur eftir aldri.Til eru góð merki sem sett eru á fætur unganna og eru þessi merki úr plasti og eins og spírall í laginu.

Þessi merki fást í mörgum litum og mörgum stærðum.Hægt er því að merkja mismunandi flokka með sitthvorum lit. Athugið að setja minnsu merkin á yngstu ungana og svo koll af kolli. Merki fást í 8,10,12,14 og 16 mm stærðum og eru stærstu merkin ætluð á fullorðna fugla .

 

Fylgjast verður vel með því þegar unginn stækkar að taka merkið af og skipta út fyrir stærra merki,annars er hætta á að merkið þrengi að leggnum og vaxi jafnvel inní legginn og skemmi hann. Merkin fást meðal annars í FB,Líflandi og hjá Vélaborg.

 

Vetrarblanda.

 

Margir hafa haft samband við mig í síma og með tölvupósti vegna vítamín blöndunar sem ég gef fuglunum yfir veturinn. Þessa blöndu gef ég svo fuglarnir fái þau vítamín og steinefni sem eru þeim nauðsynleg.

 

Yfir vetrarmánuðina þegar gróður er allur dauður og skordýr engin ná fuglarnir engum eða litlum vítamínum eða steinefnum sem þeir fá venjulega úr skordýrum og gróðri sem þeir tína upp á sumrin þegar þeir eru úti við þó þeir séu úti við á daginn yfir vetrarmánuðina og er því nauðsynlegt að bæta þeim tapið upp og að fuglarnir fái auka vítamín,bæði vegna fiðursins,eggjanna og heilsunnar almennt.

 

Ég er búin að umreikna magnið sem ég gef og hér er uppskrift af þessari blöndu miðað við að fólk sé með um 10 fugla hjá sér. Það má svo bara minnka eða auka þetta eftir fjölda fugla á heimilinu.

 

100 gr.varpkögglar, 100 gr. bygg, 50 gr. maískurl (smáfuglafóður), 1 msk.lýsi og 2 msk fiskimjöl.

 

Þetta er sett saman í ílát og bleytt í með vatni þannig að þetta verði eins og mjög þykkur hafragrautur og látið standa í bleyti yfir nótt .

 

Gefið í sér ílát daglega frá október til maíloka.

 

Fyrst set ég vatnið í fötu og útí vatnið set ég lýsið og fiskimjölið og hræri þetta vel saman. Síðan set ég allt kornið útí þennan lög og bland því vel saman og læt standa yfir nótt .

 

Þetta er gert svona til að lýsið og fiskimjölið sé vel blandað saman við vatnið og að kornið drekki þennan lög jafnt í sig. Þá er engin hætta á að vítamínin og steinefnin fari bara í sumt kornið og annað ekki. Það má að sjálfsögðu nota annað korn en bygg ef fólk hefur tök á því.

 

Vona ég að þessar upplýsingar komi að góðum notum fyrir ykkur en ef þið eru í vafa með eitthvað er ykkur velkomið að hafa samband.

  • Wix Facebook page

 

Júlíus Már Baldursson

Landnámshænan ehf / Þykkvabæ / 851 Hella / Símar 481-3348 /861-3348 / Fax 481-3349 landnamshaenan@landnamshaenan.is 

 

 

© 2023 by Name of Template. Proudly created with Wix.com